Við erum landið sem hverfur

Um daginn sá ég umræðu á Twitter þar sem fornleifafræðingur var að ræða uppgröft á kumli nálægt sjó. Hún sagði að litlu mætti muna að kumlið hefði eyðilagst út af rofi og að við strendur Íslands væri vitað af ótal mörgum kumlum við sjó sem væru í mikilli hættu á að eyðileggjast sökum jarðvegseyðingar.

Þetta hefur einhvernveginn setið í mér. Þannig finnst mér stundum málum vera háttað með furðusögur á Íslandi, en ég nota þetta orð yfir fantasíur, vísindaskáldskap og hrollvekjur. Íslenskt tungumál og íslensk menning bjóða upp á einstök tækifæri þegar kemur að ritun furðusagna. Furðan leynist svo víða í sögum á þessari undarlegu eyju. Hún er í Íslendingasögum og þjóðsögum, sem við ölumst upp við, og hún er í landinu sjálfu sem við byggjum. Við sitjum á ótal mörgum fjársjóðum sem liggja óhreyfðir í moldinni, menningarlegri arfleifð okkar og sögu. Við vitum að þessar gersemar leynast þarna – en við erum ekki að grafa þær upp.

Af hverju ekki?

Furðusögur eru einstakt tæki í bókmenntum til að skoða fortíð okkar, nútíma og framtíð. Þær eru skuggsjá sem gera okkur kleift að varpa spegli á okkur og samfélag okkar og spyrja: „Hvað ef?“

Hvað ef hinir dauðu hefðu rödd? Hvað ef einkalífið tilheyrði fortíðinni? Hvað ef jöklarnir myndu bráðna? Hvað ef vélar hefðu sál? Hvað ef það kæmi aldrei aftur sumar?

Þessi seinasta spurning er kannski óþægileg, nú á þessum síðustu og verstu tímum undanfarna daga – en þetta er hinsvegar spurning sem börn okkar eða barnabörn gætu þurft að horfast í augu við með komandi loftslagsbreytingum og útrýmingu Golfstraumsins, sem heldur hita og lífi á þessari guðsvoluðu eyju.

Furðusögur eru tæki sem búa til rýmið og frelsið sem við þurfum til að breyta umhverfi okkar og sjálfi, og þannig skoða takmarkanir og möguleika mennsku okkar. Þær gefa okkur svigrúm til að efast, dreyma og taka engu í hversdagsleika okkar sem gefnu. Furðusögur varpa fram ómöguleika dagsins í dag, sem í fyrstu virðist svo fjarstæðukenndur og súrrealískur, en á augnabliki verður hann að raunveruleika morgundagsins. Furðusögur eru vopn í höndum okkar gagnvart ófyrirsjáanlegum tímum, kort sem við notum til að skipuleggja leið okkar áfram gegnum tímann.

Með hverju árinu sem líður breytumst við og landslagið með. Vatn og vindar sverfa burt land, og sögurnar sem hefðu getað orðið hverfa í hafið. Framtíðarsýn þeirra furðusagna sem við hefðum getað ritað á 9. og 10. áratugnum verða ekki skrifaðar í dag. Þær eru okkur horfnar fyrir fullt og allt. Þetta er það sem hefur setið í mér, þar sem að sögur á borð við Lovestar eiga enn meira erindi við okkur í dag en þegar hún kom fyrst út. Hin súrrealíska, ómögulega framtíðarsýn sem þar birtist hefur að einhverju leyti orðið ómögulegi samtími okkar. Ég spyr mig hvað sögurnar sem hurfu í hafið gætu hafa sýnt okkur.

En sem betur fer þá er það ekki þannig að þessi arfleifð okkar í moldinni eyðileggist með tímanum, eins og í fornleifafræðinni. Hún bíður okkar enn. Það eru bara við sjálf sem breytumst á óafturkræfan hátt. Við erum landið sem hverfur.

Ég er því svo ótrúlega þakklátur fyrir alla þá mörgu íslensku höfunda sem eru að grafa og róta í þessari arfleifð, og spinna nýjar sögur úr fjársjóðunum sem þau finna. Ekki bara því þau eru að skrifa frábæran skáldskap, heldur munu sumar sögur þeirra reynast okkur ómetanleg verkfæri ekki aðeins til að takast á við framtíðina – heldur til að skapa hana.

Continue reading